Innlent

Víkingaskip sem lystisnekkja

Víkingaskip í stíl við lystisnekkju, - það fyrsta sinnar tegundar í heiminum, - með nútímaþægindum og tækjabúnaði, hefur verið smíðað í Stykkishólmi og er nú í reynslusiglingum. Skipasmíðastöðin Skipavík áformar fjöldaframleiðslu til sölu á heimsmarkaði.

Skipið er átján metra langt, með átján metra hátt mastur og það tók þrjú ár og tuttugu þúsund vinnustundir að smíða það. Það er afar vandað, smíðað úr mahoní og afrískum írokkó harðvið. Sigurjón Jónsson, einn eigenda Skipavíkur, segist hljóta að vera síðasti útrásarvíkingurinn með þessu framtaki en hann langaði til að smíða alvöru skip, sem væri ekki plastdrasl.

Tvær 75 hestafla vélar skipsins koma því á ellefu mílna hraða en undir þöndu segli hefur það náð sjö mílum. Sigurjón segir það alver frábært sjóskip. Skrokklagið sé það sama og á norska Gauksstaðaskipinu. Það virki enda þúsund ára reynsla.

Skipið er innréttað eins og lystisnekkja með svefnplássi fyrir sex manns í þremur káetum, sem hver hefur sitt salerni og sturtu. Næsta vor er ætlunin að sigla því til evrópu og kynna það á sýningum. Hann segist hafa kannað markaðinn undanfarinn fimm til sex ár og kveðst bjartsýnn á sölu. Verðið: 1,7 milljónir evra.

Sigurjón segir þetta einn lið í því að renna fleiri stoðum undir fyrirtækið en fyrst og fremst sé þetta gaman. Þeir geri ekkert nema það sé gaman. Það sé alveg frumskilyrði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×