Innlent

Vegagerðin vill 2 + 1 veg yfir Hellisheiði

Áform um að fjármagna tvöföldun Suðurlandsvegar með einkaframkvæmd eru í algerri óvissu eftir hrun lánsfjármarkaða. Vegamálastjóri segir að vegna efnahagsástands ætti að skoða að leggja tveir plús einn veg til Hveragerðis en vill að kaflinn þaðan til Selfoss verði tveir plús tveir.

Formaður Evrópusamtaka um öryggi vega gagnrýndi íslensk stjórnvöld í gær fyrir að ætla að leggja tvíbreiða hraðbraut milli Reykjavíkur og Selfoss þegar rannsóknir sýndu að tveir plús einn vegir væru þeir öruggustu í heimi.

Vegagerðin hannar nú að ósk samgönguráðherra fjögurra akrein veg austur fyrir fjall. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir Vegagerðina lengi hafa haft þá skoðun að 2 + 1 vegur myndi fyllilega duga yfir Hellisheiði næstu 10-15 árin. Það ráðist þó af því hvernig umferðin þróist, nú sé minnkandi umferð en menn viti ekki hversu lengi það verði. Vegagerðarmenn séu hins vegar nokkuð harðir á því að 2 + 2 vegur þurfi að vera milli Hveragerðis og Selfoss.

Vegamálastjóri segir að miðað við núverandi efnahagsástand megi skoða aftur hvort ekki megi búa við 2 + 1 veg milli Reykjavíkur og Hveragerðis næstu 10-15 ár.

Ætlunin var að svokölluð einkaframkvæmd kostaði tvöföldun Suðurlandsvegar. Einkaframkvæmd sé hins vegar ólíklegri nú, í ljósi ástandsins. Þannig hafi Vaðlaheiðargöngum, sem einnig áttu að vera í einkaframkvæmd, verið frestað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×