Enski boltinn

City rótburstaði Portsmouth

Robinho og félagar fóru á kostum í dag
Robinho og félagar fóru á kostum í dag NordicPhotos/GettyImages

Manchester City var heldur betur í stuði í dag þegar liðið tók á móti Portsmouth á heimavelli sínum. Robinho var á skotskónum í 6-0 sigri City.

Heimamenn réðu ferðinni frá fyrstu mínútu í leiknum og Brasilíumaðurinn Jo skoraði fyrsta markið eftir aðeins 13 mínútur. Richard Dunne kom City í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik, en sá síðari bauð upp á markaveislu.

Þeir Robinho, Wright-Phillips, Evans og Fernandes bættu við marki hver eftir hlé og ekki er annað að sjá en að þeir ljósbláu séu komnir á fínt skrið. Liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 9 stig.

Aðra sögu er að segja af Portsmouth, en varnarleikur liðsins var skelfilegur á köflum í leiknum. Hermann Hreiðarsson var á bekknum en kom ekki við  sögu í leiknum.

Hull og Everton skildu jöfn 2-2 í æsilegum leik þar sem nýliðarnir komust í 2-0 áður en Everton náði að jafna leikinn. 

Michael Turner kom Hull yfir á 18. mínútu og útlitið var heldur svart hjá Everton eftir að Phil Neville kom heimamönnum í 2-0 með sjálfsmarki í upphafi síðari hálfleiks.

Þeir Tim Cahill og Leon Osman náðu hinsvegar að jafna fyrir Everton með tveimur mörkum á fimm mínútum undir lokin.

Þá skildu Tottenham og Wigan jöfn 0-0 í leiðinlegum leik á White Hart Lane þar sem ógæfa heimamanna vex enn. Tottenham situr sem fyrr á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins tvö stig eftir fimm leiki.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×