Enski boltinn

West Ham svarar McCartney

NordicPhotos/GettyImages

West Ham gaf í dag út yfirlýsingu þar sem fullyrðingum norður-írska landsliðsmannsins George McCartney í gær er vísað á bug. McCartney gagnrýndi stjórn West Ham og sagði hana bera ábyrgð á uppsögn Alan Curbishley.

McCartney sagði að Curbishley hefði ekki verið hafður með í ráðum þegar félagið ákvað að selja sig og Anton Ferdinand til Sunderland.

„Curbishley leit svo á að ég og Anton værum ekki á leið frá félaginu," sagði McCartney í samtali við BBC. „En félagið fór á bak við hann og samþykkti tilboðin frá Sunderland."

„Það olli mér miklum vonbrigðum hvað hefur átt sér stað varðandi Alan hjá félaginu. Á þeim tveimur árum sem hann hefur verið við stjórnvölinn tókst honum að bjarga félaginu frá falli og ná tíunda sæti í deildinni á síðasta tímabili. Það var frábær árangur."

„En stjórnin hafði aðrar væntingar. Hún eyddi mikið af peningum og vildu sjálfsagt ná betri árangri," sagði McCartney í gær.

Stjórn West Ham hefur nú svarað þessu og ítrekar að það hafi verið McCartney sem fór skriflega fram á sölu af persónulegum ástæðum sem tengdust fjölskyldu hans. Félagið furðar sig á yfirlýsingum leikmannsins og ítrekar að það hafi viljað halda leikmanninum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×