Enski boltinn

Áfrýjun West Ham komin inn á borð CAS

NordicPhotos/GettyImages

Áfrýjunardómstóll Íþróttamála í Frakklandi hefur staðfest að honum hafi borist áfrýjun frá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham í Tevez-málinu svokallaða.

Gerðardómur úrskurðaði Sheffield United í hag þegar félagið sótti mál sitt gegn West Ham fyrir að nota ólöglegan leikmann á leiktíðinni 2006-7.

Sá var Carlos Tevez en West Ham bjargaði sér frá falli um vorið, meðal annarra á kostnað Sheffield United.

Sheffield United fór fram á 30 milljón punda skaðabætur frá West Ham og auk þess voru leikmenn og knattspyrnustjóri liðsins að íhuga að fara í mál við félagið á sömu forsendum.

Í lok síðasta mánaðar sagði talsmaður Áfrýjunardómstólsins (CAS) í Frakklandi að félagið gæti ekki áfrýjað máli sínu og sagði dómstólinn þurfa bæði samþykki Sheffield United og enska knattspyrnusambandsins til að taka við málinu.

CAS hefur nú staðfest að borist hafi áfrýjun frá West Ham og er um leið að kanna hvort möguleiki sé á því að málið verði tekið fyrir.

Ólíklegt þykir að ákvörðun liggi fyrir um þetta fyrr en í lok næsta mánaðar, en forystumenn CAS vilja ganga fyllilega úr skugga um hvort þeir hafi umboð til að fara með málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×