Innlent

Fjölmargir fasteignasalar á Akureyri fá uppsagnarbréf

Fjölmargir fasteignasalar hafa fengið uppsagnarbréf nú fyrir mánaðamótin. Á Akureyri hefur næstum helmingi launafólks í greininni verið sagt upp störfum.

Þótt fasteignasalar taki sumir fram að um varúðarráðstafanir sé að ræða ríkir almennt mikil svartsýni í greininni. Á Akureyri eru dæmi um að fasteignasölur séu þegar komnar í þrot og þar er mikið um uppsagnir nú fyrir mánaðamótin. Hjá Byggð hefur fjórum starfsmönnum af fimm sem unnið hafa við eignasölu verið sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara og verður aðeins einn virkur fasteignasali þar eftir, gangi uppsagnirnar eftir. Hjá annarri fasteignastofu hætta samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu allir þrír starfsmennirnir og stofan leggst af. Þá hverfur að óbreyttu eitt og hálft stöðugildi á fasteignasölunni Holti.

Einn fasteignasali bendir á að það segi sig sjálft að þegar seljist kannski engin eða ein eign í hverri viku - eins og verið hefur á Akureyri undanfarið, verði ekki lengi við unað. Húseigendur haldi að sér höndum og aðgangur að lánsfé sé erfiður. Algjört hrun hefur einnig orðið í Reykjavík sem og annars staðar á landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×