Enski boltinn

Eriksson verður rekinn frá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sven-Göran Eriksson, stjóri Manchester City.
Sven-Göran Eriksson, stjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Fréttastofa BBC heldur því fram á vefútgáfu sinni í dag að Sven-Göran Eriksson verði ekki knattspyrnustjóri Manchester City á næstu leiktíð.

Honum mun hafa þegar verið tilkynnt um þetta en eftir því sem fram kemur í fréttinni telur Thaksin Shinawatra, eigandi City, að Eriksson sé ekki rétti maðurinn fyrir starfið.

Eriksson mun hafa tilkynnt leikmönnum þetta á æfingu í gær og brugðust leikmenn illa við. Michael Ball, leikmaður City, kom fram í fjölmiðlum í gær og sagði Eriksson njóta fulls stuðnings leikmanna liðsins.

Eriksson á tvö ár eftir af samningi sínum og hann segir að hann muni ekki segja starfi sínu lausu.

City hefur gengið illa eftir áramót eftir að liðið náði frábærum árangri í haust. Shinawatra var á vellinum um helgina er City komst í 2-0 forystu gegn Fulham en tapaði leiknum 3-2.

Eftir leikinn tilkynnti Shinawatra Eriksson ákvörðun sína. Heimildamaður BBC sagði að Eriksson hafði brugðist rólega við en að þetta hafi komið honum á óvart og að ákvörðun Shinawatra olli honum vonbrigðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×