Enski boltinn

WBA og Stoke upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ungur Stoke-maður á vellinum í dag.
Ungur Stoke-maður á vellinum í dag. Nordic Photos / Getty Images
West Bromwich Albion og gamla Íslendingaliðið Stoke City tryggðu sér í dag sæti í ensku úrvalsdeildinni.

West Brom tryggði sér meistaratitilinn með 2-0 sigri á QPR en Stoke náði öðru sætinu með því að hanga á markalausu jafntefli gegn Leicester.

Úrslitin þýddu að Leicester féll í ensku C-deildina ásamt Scunthorpe og Colchester.

Hull, Bristol City, Watford og Crystal Palace taka þátt í umspilskeppninni um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Stoke var í öðru sæti deildarinnar þegar leikir dagsins hófst og þurfti jafntefli til að tryggja úrvalsdeildarsætið eða þá að treysta að Hull myndi ekki vinna Ipswich.

Stoke lék gegn Leicester sem þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að gulltryggja sæti sitt í deildinni. Það var því mikið undir í þeim leik.

Stoke byrjaði betur en skiljanlega voru taugarnar þandar til hins ýtrasta hjá báðum liðum. Staðan var markalaus í hálfleik sem og í leik Hull og Ipswich.

En um miðjan síðari hálfleikinn kættust stuðningsmenn Stoke afar mikið þar sem þeir fréttu að Ipswich væri búið að ná forystunni gegn Hull. Það þýddi að Stoke mætti taapa en samt kæmist liðið í ensku úrvalsdeildina.

Leicester var enn í slæmum málum og liðið reyndi allt sem það gat til að skora og halda sæti sínu í deildinni. Þeim var dæmd aukaspyrna á vítateigslínunni en brotið var án nokkurs vafa innan víteteigsins. Ekkert kom úr aukaspyrnunni.

Iain Hume komst svo nálægt því að skora fyrir Leicester en Carlo Nash, markvörður Stoke, varði glæsilega frá honum.

En allt kom fyrir ekki og Stoke fagnaði úrvalsdeildarsætinu. Því miður fyrir Leicester dugði jafnteflið ekki til.

Leicester og Southampton voru bæði með 51 stig fyrir leikinn en síðarnefnda liðið var með lakara markahlufall og því í fallsæti - þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Southampton vann hins vegar 3-2 sigur á Sheffield United og fór því í 54 stig. Sheffield Wednesday var með 53 stig og lakara markahlutfall en Leicester fyrir leikina en vann öruggan 4-1 sigur á Norwich.

Scunthorpe og Colchester voru þegar fallinn fyrir daginn og fylgja því Leicester niður í C-deildina.

Hull tapaði fyrir Ipswich en var þó öruggt með þriðja sætið og þar með sæti í umspilskeppninni. Bristol City var sömuleiðis öruggt en hörð barátta var um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni.

Watford og Crystal Palace voru í góðri stöðu fyrir daginn og síðarnefnda liðið vann 5-0 sigur á Burnley og tryggði sér þar með sæti í umspilskeppninni.

Watford gerði hins vegar 1-1 jafntefli við Blackpool sem þýddi að þriggja sigur myndi tryggja Wolves sæti í umspilinu á kostnað Watford.

Wolves komst yfir í leik sínum gegn Plymouth undir lok leiksins en það dugði ekki til og því héldu bæði Watford og Crystal Palace sætum sínum í umspilinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×