Innlent

Pólskur saksóknari um Plank: Morðingi í klíkustríði

Premyslaw Plank, sem sést hér leiddur í burtu af lögreglu í síðasta mánuði, er kallaður Plankton í undirheimum
Premyslaw Plank, sem sést hér leiddur í burtu af lögreglu í síðasta mánuði, er kallaður Plankton í undirheimum

Jan Stawicki saksóknari í Wloclawek Póllandi þekkir vel mál Przemyslaw Plank sem handtekinn var á Íslandi í fyrradag grunaður um morð í heimalandi sínu. Plank er grunaður um að hafa myrt pólska boxarann Andrzej S. Hamel þann 21.mars á síðasta ári.

„Lögreglan fann lík í nágrenni Wikaryjskie árinnar og á því voru nokkrir áverkar. Morðingjarnir voru fleiri en einn og þeir notuðu líklega sveðjur," segir Jan Stawicki saksóknari í samtali við Vísi.

Plank sem kallaður er Plankton er talinn vera einn af þeim sem myrtu boxarann að sögn Stawicki en svo virðist sem um nokkurskonar klíkustríð hafi verið að ræða.

„Przemysław Plank var hluti af Niedzóla genginu en Andrzej S. Hamel var meðlimur í gengi sem barðist við gengi Planktons um yfirráð í bænum," segir Stawicki þegar hann útskýrir ástæður morðsins.

Aðspurður um hversvegna hann haldi að Plankton hafi komið til Íslands segist hann ekki vita það beint en grunar að það hafi verið til þess að flýja umræðuna í Póllandi.

„Þegar hann fór til Íslands lágu fyrir þónokkrar upplýsingar um Hamel morðið og Niedzóla klíkuna. Það var mikið fjallað um þetta í blöðunum hérna en í upphafi rannsóknarinnar var Plankton aðeins vitni í málinu. Síðar var hann grunaður um morðið en þá flúði hann frá Póllandi."

Plankton hefur haldið því fram m.a í íslenskum fjölmiðlum að hann hafi fjarvistarsönnun og gaf sig meðal annars fram eftir að umfjöllun um hann hófst hér á landi. Stawicki segist ekki vita til þess að Plankton hafi fjarvistarsönnun.

„En þetta er vissulega áhugaverður punktur fyrir okkur. Það eina sem ég get sagt er að við höfum mjög góð sönnunargögn gegn honum."

Stawicki segist ekki halda að fleiri meðlimir Niedzóla klíkunnar dvelji á Íslandi.


Tengdar fréttir

Búið að handtaka eftirlýsta Pólverjann

Búið er að handtaka Premyslaw Plank sem eftirlýstur var í Póllandi vegna gruns um aðild að morði þar í landi, eftir því sem Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík segir.

Rak meintan morðingja

Premyslaw Plank, sem grunaður er um aðild að hrottalegu morði í Póllandi, hefur unnið sem iðnaðarmaður í Hafnarfirði undanfarnar vikur. Honum var sagt upp störfum á laugardaginn eftir að Fréttablaðið greindi frá því að handtökuskipan hefði verið gefin út á hendur honum.

Neitar aðild að pólsku mafíunni

Przemyslaw Plank, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í kvöld vegna gruns um aðild að hrottalegu morði í Póllandi, segist vera saklaus.

Plank í gæsluvarðhaldi til 6. maí

Premyslaw Plank, sem grunaður um aðild að manndrápi og er eftirlýstur í heimalandi sínu, var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Trúaði trúbadorinn hýsti bæði morðingja og flóttamann

Pólverjarnir Slawomir Sikora, sem myrti tvo mafíósa í Póllandi, og Premyslaw Plank sem sjálfur er grunaður um að vera mafíósi og handtekinn var í gær grunaður um óupplýst í Póllandi voru þar til nýlega báðir leigjendur hjá Guðlaugi Laufdal athafnamanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×