Innlent

Gagnrýnir verðhækkanir ríkisins á mjólk og áfengi

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa
Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa

,,Ríkið fer ekki undan með fordæmi. Það er alveg á hreinu," segir Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa þegar hann gagnrýnir nýlegar verðhækkanir ríkisins á mjólkurvörum og áfengi.

Verðlagsnefnd búvara ákvað í október að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 10,39 prósent. Hækkunin tók gildi 1. nóvember. Sama dag hækkaði áfengisverslun ríkisins verð á vörum sínum að meðaltali um 5,25 prósent.

,,Við erum afar vonsvikin því við höfum ekki verið að ríða feitum hesti frá sölu á mjólkurvörum. Ríkið segir okkur þá bara að versla annars staðar en það er ekki eins og það sé hægt að flytja inn mjólkurvörur án þess að ofurtollar falli á þær," segir Gunnar og bætir við að tollarnir séu gríðarlegir og auk þess þurfi verslanir að kaupa ákveðna kvóta til að geta keypt aðfluttar landbúnaðarvörður.

Verslanir og þjónustuaðilar hafi þurft að kyngja miklum verðhækkunum undanfarið, að sögn Gunnars. ,,Gengisvísitalan var 113 fyrir ári síðan og við vitum hvar hún stendur í dag. Þetta er yfir 90% hækkun og við erum ekki búin að sjá yfir 90% hækkanir hérna á landinu. Ef svo væri myndi nú einhvers staðar heyrast hljóð og langmest niðri á Alþingi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×