Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir lífshættulega hnífstungu

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Sævar Sævarsson í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps en hann stakk erlendan karlmann í tvígang í miðbænum föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi.

Samkvæmt ákæru stakk Sævar fórnarlamb sitt einu sinni í bakið og einu sinni í handlegginn og var fórnarlambið í lífshættu á tímabili. Atvikið náðist á öryggismyndavél og var Sævar handtekinn ásamt þremur félögum sínum. Hann játaði brot sitt bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.

Samkvæmt framburði Sævars stóð hann í Bankastræti með vinum þegar maðurinn sem stunginn var gekk fram hjá. Sagði Sævar að sér hefði virst sem hann væri að leita að „kýtingi". Svo hefði hann heyrt hljóð eins og lamið hefði verið eða sparkað í bíl sem hann og félagi hans voru á. Elti hann fórnarlambið sem kastaði glerflösku í átt að honum og tók hann þá upp vasahníf. Í sundi við Alþjóðahúsið hefði fórnarlambið dottið en staðið upp og slegið frá sér. Þá sagðist Sævar hafa stungið fórnarlambið.

Segir í dómnum að hnífurinn í málinu hafi ekki fundist en stungan í bakið hafi verið mjög djúp. Tilviljun ein hefði ráðið því að sú stunga hitti manninn fyrir á tiltekinn stað en ekki í stærri æðar í eða við lungað því þá hefði honum blætt út á mjög skömmum tíma. Sagði dómurinn því að árásin væri lífshættuleg og án nokkurs réttlætanlegs tilefnis. „Hefur hún samkvæmt gögnum málsins valdið brotaþola alvarlegu líkamstjóni og var til þess fallin að hafa í för með sér slæmar afleiðingar fyrir andlega heilsu hans," segir í dómnum.

Fram kom í dómnum að Sævar hefði sjálfur orðið fyrir alvarlegri líkamsárás árið 1999 og hlotið við það vefrænan og sálrænan heilaskaða. Það lýsi sér meðal annars í ýktum viðbrögðum af hans hálfu finnist honum sér ógnað. „Þegar hins vegar til þess er litið hversu lítilfjörlegt það atvik er sem virðist hafa hrundið af stað þeirri atburðarás sem lyktaði með árásinni á brotaþola, og að ákærði framdi verknaðinn eftir að hafa elt brotaþola um alllangan spöl, með hnífinn í hendi, þykir ekki vera unnt að fallast á að þau refsilækkunarsjónarmið sem lýst er í greindum ákvæðum geti átt hér við," sagði í dómnum.

Taldi því dómurinn fimm ára fangelsi hæfilega refsingu en frá þeim dómi dregst varðhald sem Sævar hefur sætt frá 6. ágúst. Auk fangelsisins var Sævar dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 830 þúsund krónur í bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×