Innlent

Ómetanlegum verðmætum verði ekki fórnað fyrir stundargróða

Ómar Ragnarsson er formaður Íslandshreyfingarinnar.
Ómar Ragnarsson er formaður Íslandshreyfingarinnar.

Íslandshreyfingin varar við því að ómetanlegum náttúruverðmætum verði fórnað fyrir stundargróða við núverandi aðstæður í efnahagsmálum.

Í ályktun frá hreyfingunni vegna efnahagsástandsins segir að hún hafi allt frá stofnun varað við hættunni á því hvert græðgishyggja og tillitsleysi gagnvart samborgurum og afkomendum okkar geti leitt. Frelsi, jafnrétti og bræðralag náist ekki nema í jafnvægi. „Á bræðralagið hefur skort og þegar frelsi sumra fer út yfir eðlileg mörk bitnar það á frelsi annarra og jafnréttið fer halloka," segir í ályktuninni.

Segir hreyfingin að þörf sé á nýju gildismati og uppstokkun á grundvelli ítarlegrar greiningar á því hvað fór úrskeiðis, helst með aðstoð erlendis frá, svo læra megi af mistökunum. „Þá getur runnið upp ný öld í endurreisnar þar sem ómetanlegum náttúruverðmætum er ekki fórnað fyrir stundargróða og ekki sótt svo skefjalaust í orkulindirnar að þær þverri og séu ekki endurnýjanlegar," segir Íslandshreyfingin.

Fara þurfi leið Finna sem hafi aukið landsframleiðslu sína með framleiðslu byggðri á hugviti og menntun. Annars flýi unga fólkið land. „Ná þarf samstöðu og æðruleysi til að komast út úr vandanum og framsýni til að koma í veg fyrir að honum verði velt yfir á komandi kynslóðir. Það er skylda okkar að sýna hugrekki og þrautseigju, axla ábyrgð á því hvernig komið er og líta í eigin barm," segir einnig í ályktunninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×