Innlent

Vinnubúðir á Kárahnjúkum fluttar að Búðarhálsvirkjun

Landsvirkjun hyggst nota vinnubúðir af Kárahnjúkum við uppbyggingu á Búðarhálsvirkjun sem nú er að fara af stað. Á heimasíðu Landsvirkjunar er óskað eftir tilboðum í flutning vinnubúðanna frá Kárahnjúkavirkjun að vinnusvæði Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun.

Verkið felur í sér að hífa vinnubúðir, sem staðsettar eru við Kárahnjúkastíflu, við Axará og í Fljótsdal, á flutningsvagna og flytja þær á vinnusvæði Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun ásamt að hífa þær þar af vögnunum og raða á undirstöðubita. Skila verður tilboðum í verkið fyrir 4. nóvember en reiknað er með að því verði lokið um miðjan desember.

Landsvirkjun ákvað í ágúst að setja Búðarhálsvirkun aftur á dagskrá en öll tilskilin leyfi eru fyrir henni. Raforkan verður meðal annars seld álverinu í Straumsvík, sem er að undirbúa aukna framleiðslu í verinu með tæknilegum endurbótum.

Búðarhálsvirkjun verður áttatíu megavött og nýtir fallið frá útfalli Hrauneyjafossvirkjunar við ármót Köldukvíslar og Tungnaár niður í Sultartangalón.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×