Innlent

Sóltún fékk of háar greiðslur að mati Ríkisendurskoðunar

Með rangri skráningu á heimilismönnum fékk hjúkrunarheimilið Sóltún mun hærri greiðslur úr ríkissjóði en heimilið átti rétt á, að mati Ríkisendurskoðunar.

Heilbrigðisráðuneytið samdi í apríl 2002 við Öldung hf. um rekstur hjúkrunarheimilis að Sóltúni 2 í Reykavík. Var það fyrsti samningurinn af því tagi við einkaaðila hér á landi.

Greiðslur ríkisins til félagsins eru ákveðnar út frá svokölluðum RAI-stuðli sem mælir veitta þjónustu við sjúklinga. Fari stuðullinn yfir 1,20 þarf ríkið að greiða aukalega.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að frá árinu 2003 hefur RAI-stuðull Sóltúns ítrekað farið yfir 1,20 og hefur Sóltún í samræmi við það gert kröfur um aukagreiðslur frá ríkinu.

Alls námu aukagreiðslur á árunum 2003 til 2005 um 108 milljónum.

Árið 2006 gerði heimilið svo kröfu um viðbótargreiðslu upp á rúmar 22 milljónir. Ráðuneytið hefur hins vegar neitað að greiða þann reikning. Í kjölfarið var Ríkisendurskoðanda gert að gera úttekt á reikningum heimilisins.

Samkvæmt ríkisendurskoðanda bendir allt til að Sóltúni hafi ekki fylgt leiðbeiningum um skráningu upplýsinga íl RAI-kerfið.

Öldungur hf, sem rekur Sóltún sendi, frá sér yfirlýsingu nú síðdegis vegna málsins. Þar segir:

„Forráðamenn Sóltúns vísa á bug þeim aðdróttunum sem felast í greinargerð Ríkisendurskoðunar. Þeir átelja einnig harðlega vinnubrögð Ríkisendurskoðunar, enda bendi niðurstöður til að gögn Sóltúns hafi ekki verið notuð í könnuninni. Enda gefi hún kolranga mynd af þjónustunni í Sóltúni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×