Innlent

Gríðarleg upplýsingavinna vegna hruns bankanna

Upplýsingavinna vegna hruns bankanna er líklega mikilvægasta verkefni sem unnið hefur verið í utanríkisráðuneytinu, segir upplýsingafulltrúi ráðuneytisins. Fjölmargir starfsmenn þess hafa lagt önnur störf til hliðar og einbeita sér að þessu verkefni.

Sérstök samhæfingarmiðstöð hefur verið sett upp í utanríkisráðuneytinu, þar sem haldinn er fjöldi funda um hvernig eigi að bregðast við fréttum af efnahagsástandinu á Íslandi.

„Það sem ráðuneytið hefur gert er í raun og veru að setja stóran hluta af sínu daglega starfi til hliðar og einbeita sér að þessu gríðarstóra verkefni sem er að samræma vinnu sendiráða og að aðstoða við að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri erlendis," segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Þar á Urður við upplýsingar til almennings, fjölmiðla og alþjóðastofnana. Sendiráð eru í flestum þeim löndum sem hvað mest hefur verið fjallað um þessi mál og þau fylgjast vel með þar. Starfsemi ráðuneytisins hefur svo sannarlega breyst frá þvi þessi staða kom upp. „Þetta er bara svo mikilvægt verkefni, líkelga mikilvægasta verkefni sem við höfum nokkunr tíma tekist á við," segir Urður.

Stjórnvöld hafa þegar leitað til almannatengsla- og upplýsingasérfræðinga í ýmsum löndum, en það er í samræmi við tillögur Almannatengslafélags Íslands, en fulltrúar þess funduð með stjórnvöldum í vikunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×