Innlent

Telur að læknasamningur verði samþykktur þrátt fyrir óánægju

Kosning um samkomulag um nýjan kjarasamning sem samninganefnd Læknafélags Íslands og samninganefnd ríkisins komust að 1. október hefst að öllum líkindum á morgun.

Gunnar Ármannsson, framkvæmdstjóri Læknafélagsins og formaður samninganefndar félagsins, telur að samningurinn verði samþykktur þrátt fyrir óánægju lækna.

,,Það er enginn ánægður með þennan samning en í ljósi aðstæðna er hann skásta lausnin. Mér heyrist að meirihluti lækna sé þessarar skoðunar þannig að ég á von á því að samningurinn verði samþykktur," segir Gunnar.

Samkvæmt samkomulaginu hækka grunnlaun lækna um rúmlega 20 þúsund krónur á mánuði auk þess sem yfirvinnugreiðslur hækka. Gildistími hans er frá 1. september og út mars á næsta ári.

Í júlí felldu félagsmenn í Læknafélaginu í hefðbundinni póstkosningu kjarasamning við ríkið með 57% gildra atkvæða. Mikil óánægja var með ungra lækna með samninginn.

Kosning meðal félagsmanna Læknafélagsins hefst að öllum líkindum og mun hún standa í viku. Kosningin fer fram á veraldarvefnum. Í lok september kannaði félagið hug lækna til kjaradeilunnar með rafrænni fyrirspurn.

,,Það sýndi sig að menn voru mjög viljugir til að taka þátt og það var yfir 70% þátttaka. Í ljósi þess þá ætlum við að fara sömu leið núna," segir Gunnar.

Kynningarfundur um samkomulagið verður haldinn í kvöld í húsnæði Læknafélagsins í Hlíðasmára.


Tengdar fréttir

Læknar hafa náð samkomulagi við ríkið

Samninganefnd Læknafélags Íslands og samninganefnd ríkisins komust að samkomulagi um nýjan kjarasamning síðdegis í dag. Skrifað var undir nýjan samning hjá ríkissáttasemjara fyrr í kvöld.

Samkomulag lækna hljómar ekki sérstakt

,,Ég á eftir að sjá smáa letrið en þetta hljómar ekki beisið," sagði Ragnar Freyr Ingvarsson formaður Félags ungra lækna í samtali við Vísi um nýjan kjarasamning Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×