Innlent

Björgólfur segir Íslandi betur borgið utan ESB

MYND/GVA

Björgólfur Jóhannsson, fráfarandi formaður LÍÚ, er algjörlega andvígur þeim sjónarmiðum að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.

Í kveðjuræðu sinni á aðafundi sambandsins sagðist Björgólfur telja að þegar íslenskur almenningur kynnti sér betur hvernig að þessum málum er staðið yrði honum ljóst að að hagsmunir Íslands væru best tryggðir utan ESB. Með aðild myndu Íslendingar afsala sér yfirráðum yfir fiskimiðunum og þá myndi ESB stjórna veiði hér við land.

„Á sama tíma og við höfum staðið vörð um okkar helstu fiskistofna og gert þá kröfu að fiskveiðarnar yrðu reknar á heilbrigðum, rekstarlegum forsendum hefur ESB rekið þveröfuga stefnu. Fiskimið aðildarlandanna hafa verið ofnýtt, fiskiskipastóllinn er allt of stór og hundruðum milljarða hefur verið varið til þess að halda atvinnuveginum gangandi," sagði Björgólfur.

Þá talaði Björgólfur um einhliða áróður ESB-sinna og sagði það áhyggjuefni. „Þegar starfsmenn þriggja háskóla vinna eins og áróðursvélar fyrir aðild að ESB er ekki við því að búast að við almenningi blasi óvilhöll mynd af þeim grundvallarhagsmunamálum sem þjóðin stendur frammi fyrir," sagði Björgólfur.

Sagði Björgólfur ekki við krónuna að sakast hvernig komið væri fyrir þjóðinni. „Ástæðuna fyrir tíðum sveiflum krónunnar undanfarin ár er að finna í þeirri stjórn - eða öllu heldur þeirri óstjórn peninga- og efnahagsmála - sem hér hefur viðgengist undanfarin ár. Þegar óvarlega er farið við stjórn efnahagsmála er viðbúið að það endurspeglist í gengi krónunnar. Það er misskilningur að halda því fram að við hefðum getað komist hjá þeim vandræðum sem við erum stödd í dag með því einu að skipta um gjaldmiðil - því miður," sagði Björgólfur enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×