Innlent

Stjórnvöld styðji við menntun og þekkingarsköpun í kreppunni

MYND/GVA

Stúdentaráð Háskóla Íslands segir mikilvægt að styðja vel við menntamál og þekkingarsköpun í núverandi kreppu til þess að stuðla að viðreisn og nýjum tímum.

Fram kemur í tilkynningu ráðsins að nú þegar brýnt sé að skera á fjárveitingar á vegum ríkisins til þess að mæta erfiðara árferði í þjóðarbúskap minni Stúdentaráð á hversu mikilvægt sé að hlúa almennilega að hugviti og stúdentum sem saman mynda afl sem muni leggja sitt ítrasta í að leiða þjóðina úr ógöngum og skammtímaþroti.

„Útgjöld til menntamála og stuðningur við þekkingarsköpun verður þannig ávallt að skoða sem lið í viðreisn nýrra tíma en ekki bagga og þungan lið í fjárlögum. Það er ljós við enda ganganna og sú þekking og það hugvit sem býr í Háskóla Íslands og stúdentum hans er liður í því að koma þjóðinni skjótar og öruggar í átt þess,“ segir í tilkynningunni.

Því leggur Stúdentaráð til að hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði eflt og að kröfur Sambands íslensra námsmanna erlendis um 500 þúsund króna neyðarlán til stúdenta í útlöndum verði teknar til greina. Þá þurfi að hlúa almennilega að stúdentum búsettum á Íslandi sem og erlendis, þekkingarsköpun og menntamálum. Enn fremur að halda landinu sem eftirsóknarverðum kosti fyrir stúdenta til framtíðarbúsetu og að tryggja að jafnrétti til náms og opin menntun verði höfð í hávegum.

„Í hverri kreppu sem riðið hefur yfir þjóðina hafa stúdentar lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar til að reisa við landið. Nú sem ætíð fyrr eru stúdentar klárir í bátana en til þess þarf ríkið að skapa umhverfi sem gerir stúdentum kleift að róa af fullum þunga í átt að nýrri farsælli Frón," segir í yfirlýsingu stúdentaráðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×