Íslenski boltinn

Páll Axel í Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Axel á fleygiferð með íslenska landsliðinu í körfubolta.
Páll Axel á fleygiferð með íslenska landsliðinu í körfubolta.

Það skal tekið fram strax í upphafi að þessi frétt fjallar um knattspyrnu - en ekki körfubolta.

Páll Axel Vilbergsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur formlega gengið til liðs við knattspyrnulið Grindavíkur en hann hefur leikið með körfuboltaliði félagsins um árabil.

Páll Axel var áður skráður í GG sem hefur nú lagt upp laupana og sagði hann í samtali við Vísi að hann hafi gert þetta aðallega formsins vegna.

„Ég vildi bara vera í mínu félagi ef ég skyldi nú spila með old boys-liðinu í sumar. Ég er ekki að fara að mæta á æfingar hjá meistaraflokki enda hef ég hvorki áhuga né getu til þess," sagði hann í léttum dúr.

Hann neitar þó ekki að hann muni svara kallinu ef það kemur. „Já, ég er alltaf klár og myndi aldrei skorast undan nýrri áskorun," sagði hann en hvaða stöðu myndi hann spila á vellinum?

„Ég myndi ekki koma nálægt vörninni og tel að ég myndi nýtast mun betur í sókninni. Ég held að miðað við leikinn gær að þá hefði þeim ekki veitt af háum „target senter" til að taka við boltanum og halda honum," sagði hann en Valur vann í gær 3-0 sigur á Grindavík. „Þeim virtist reyndar ekki veita af hjálpinni," sagði hann í hæðnistón.

„Ég reyndar stórefast um að kallið komi en það er þó aldrei að vita. Möguleikinn er alla vega fyrir hendi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×