Innlent

Reynt að leysa vanda frístundaheimilanna

Sviðsstjórum Íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs verður falið að stjórna vinnu um tillögur að lausnum á manneklu- og aðstöðuvanda frístundaheimilanna gangi hugmynd Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra fram að ganga.

Tillagan var lögð fram á fundi borgarráðs í morgun og er markmið hennar að tryggja sem flestum börnum á aldrinum 6-9 ára fjölbreytt frístundastarf eftir að skólastarfi lýkur á daginn. Fram hefur komið að töluverðan fjölda starfsfólks vanti á frístundaheimilin og 1400 börn eru á biðlista eftir plássi á slíkum heimilum.

Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að leitað verði leiða til að efla og samþætta störf sviðanna auk skóla og frístundaheimila í þessu skyni. Jafnframt verða kannaðar fjölbreyttar lausnir varðandi rekstur frístundaheimilanna svo sem með samstarfi við félagasamtök, íþróttafélög og aðra. Tillagan borgarstjóra verður tekin til afgreiðslu á næsta fundi borgarráðs að viku liðinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×