Íslenski boltinn

Tryggvi: Ég gleymdi mér í gleðinni - Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

„Auðvitað sé ég eftir þessu. Þetta var kjánalegt. Ég gleymdi mér bara í gleðinni," sagði Tryggvi Guðmundsson í samtali við Vísi í dag.

Tryggvi fékk að líta gula spjaldið í leik FH og Keflavíkur í gær fyrir óíþróttamannslega framkomu og að ögra leikmönnum Keflavíkur. Eftir að FH skoraði sigurmark sitt í leiknum undir lokin fagnaði Tryggvi markinu beint fyrir framan leikmenn Keflavíkur.

Markið þýddi að FH á enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en jafntefli hefði þýtt að Keflavík hefði orðið Íslandsmeistari.

„Það fór í taugarnar á mér hvenig þeir fögnuðu seinna markinu - bara eins og þeir væru orðnir Íslandsmeistarar. Það kveikti í mér."

„Svo átti ég sjálfur þátt í markinu okkar og það er bara ekki kveikt á öllum perum þegar svona atriði kemur upp. Ég baðst líka afsökunar á þessu eftir leik enda óhugsað og kjánalegt. Ég sá eftir þessu strax."

Þetta var fjórða gula spjald Tryggva í sumar sem þýðir að hann verður í banni í lokaumferðinni þegar FH fer í heimsókn í Árbæinn. Þriðja gula spjaldið fékk hann er hann fagnaði sínu 100. marki á ferlinum í leik gegn Val.

„Spjaldið sem ég fékk í gær var alveg klárt en hitt öllu verra. Mér fannst það mjög strangt að gefa mér gult fyrir að fagna þetta stórum áfanga. Það sem ég gerði var heldur ekki gróft. Ég lyfti upp treyjunni og sýndi C-ið."

Tryggvi segir að keppnisskapið hafi oft komið sér í vandræði en utan vallar sé hann öllu skapbetri.

„Það er fullt af fólki sem heldur að ég sé algjör bastarður og hef ég fundið fyrir því sjálfur. Ég er samt ljúfur drengur og vill engum illt, þó svo að ég geti verið alveg bandvitlaus inn á vellinum."






Tengdar fréttir

Jóhannes: Ég gaf Dennis gult

Jóhannes Valgeirsson, dómari leiks FH og Vals, staðfestir að Dennis Siim hafi fengið áminningu í leiknum sem þýðir að hann átti að vera í banni í leik Keflavíkur og FH í gær.

Kristján um Tryggva: Svona hagar maður sér ekki

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, segir að hegðun Tryggva Guðmundssonar í leik FH og Keflavíkur í gær sé ekki leikmanni í Landsbankadeildinni sæmandi.

FH án Tryggva og Dennis gegn Fylki

Tryggvi Guðmundsson mun missa af leik Fylkis og FH í lokaumferð Landsbankadeildar karla þar sem hann fékk sitt fjórða gula spjald á leiktíðinni í leik FH og Keflavíkur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×