Innlent

Friðrik áfram forstjóri Landsvirkjunar

Friðrik Sophusson verður áfram forstjóri Landsvirkjunar og jafnvel til tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að í ljósi gjörbreyttra aðstæðna hafi stjórn fyrirtækisins farið þess á leit við Friðrik að hann héldi áfram störfum sem forstjóri og var sú niðurstaða samþykkt samhljóða af stjórn Landsvirkjunar.

Í sérstakri bókun um ákvörðunina er vísað til efnahagsástandsins í landinu nú um stundir: „Landsvirkjun gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu og rekstri framleiðslustarfseminnar í landinu og vegur rekstur fyrirtækisins þungt í fjármálum þjóðarinnar. Í ljósi aðstæðna, sem nú eru uppi í efnahagsmálum og þjóðmálum, telur stjórn Landsvirkjunar brýnt að tryggja festu og samfellu í stjórn fyrirtækisins. Við þessar aðstæður hefur orðið að samkomulagi milli stjórnar og núverandi forstjóra að framlengja gildandi ráðningarsamning um allt að tvö ár í samræmi við ákvæði 8. gr. samningsins."

Halda þarf traustum samskiptum við viðskiptavini og lánardrottna

Friðrik hefur verið forstjóri Landsvirkjunar frá árinu 1999 en hugðist hætta í lok þessa árs. Því var starfið auglýst til umsóknar og bárust alls 55 umsóknir um starfið og var fjöldi hæfra einstaklinga í hópi umsækjenda að sögn Landsvirkjunar. „Ráðningarferlið var í eðlilegum farvegi og höfðu nokkrir umsækjenda verið kallaðir í viðtal, þegar aðstæður í þjóðfélaginu breyttust á svipstundu á þann veg, að augljóst var að meginviðfangsefni stjórnar og forstjóra næstu misseri yrði að tryggja festu og stöðugleika í rekstri sem og trausta eftirfylgni við undirbúning fyrirhugaðra virkjunar-framkvæmda," segir í tilkynningunni.

Halda þurfi traustum samskiptum við helstu viðskiptavini og lánardrottna fyrirtækisins. „Þar skipta persónuleg tengsl og góð viðskipta-sambönd meginmáli. Að vel athuguðu máli þótti stjórn Landsvirkjunar því sérstök efni standa til þess að fara fram á það við núverandi forstjóra að hann gæfi kost á framlengingu gildandi ráðningarsamnings. Á þessum tíma er mikilvægt að nýta áfram reynslu og þekkingu núverandi forstjóra og telur stjórn Landsvirkjunar það best þjóna hagsmunum fyrirtækisins við úrlausn þeirra verkefna, sem nú eru framundan," segir einnig í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×