Lífið

Opna fasteignasölu á meðan aðrir loka

Breki Logason skrifar
Systurnar Telma og Hrönn Róbertsdættur á fasteignasölunni Húsin í borginni.
Systurnar Telma og Hrönn Róbertsdættur á fasteignasölunni Húsin í borginni.

Telma Róbertsdóttir segist í hreinskilni aldrei hafa verið neitt sérstaklega í takt við alla hina. Í dag stendur hún undir nafni og opnar fasteignasölu ásamt systur sinni. Telma hefur verið fasteignasali í fimm ár og hefur lengi haft þann draum að opna eigin sölu. Opnunarpartý fasteignasölunnar, Húsin í borginni, verður haldið niður á Klapparstíg 5 klukkan 17:00 í dag.

„Við systurnar erum að opna þetta, hún er reyndar tannlæknir og verður því lítið á sölunni. Við eigum þetta samt saman og munum opna með pompi og prakt í dag, við ætlum ekki að loka eftir þrjá mánuði," segir Telma sem horfir jákvæðum augum á fasteignamarkaðinn.

„Fólk þarf alltaf að kaupa og selja fasteignir. Og þó ástandið sé erfitt núna þá á það eftir að breytast. Þegar maður hefur svona mikinn kraft og er jákvæður þá gengur allt upp hjá manni."

Telma viðurkennir að það hafi verið ákveðið fyrir nokkru síðan að opna söluna og þegar þær voru farnar af stað og búnar að kaupa húsnæðið var ekki aftur snúið. „Maður er ekkert að gráta í koddann þó þetta sé svona. Við ætlum bara að blása lífi í þetta og halda áfram."

Fasteignasalan ber nafnið, Húsin í borginni, og var það eiginmaður Telmu sem stakk upp á nafninu. Opnunarpartýið hefst á slaginu klukkan 17:00 og er búið að tjalda og gera allt tilbúið. „Veðrið er ágætt en við erum með einhverja hitara og svona," segir Telma eldhress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.