Íslenski boltinn

Þorvaldur: Allt gekk upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Framarar fagna einu af mörkum sínum í dag.
Framarar fagna einu af mörkum sínum í dag. Mynd/Pjetur

Framarar náðu virkilega athyglisverðum úrslitum í Árbænum í dag þegar þeir unnu öruggan 3-0 útisigur á Fylki. Þetta var fyrsti leikur liðsins í Landsbankadeildinni undir stjórn Þorvaldar Örlygssonar sem tók við liðinu í vetur.

„Það var gott flæði í okkar liði og leikmennirnir voru mjög duglegir. Þeir voru alltaf tilbúnir að hlaupa án bolta og sóknaraðgerðirnar voru mjög góðar. Við náðum líka að loka vel á þá og það gekk í raun allt upp í dag. Þetta voru talsverðir yfirburðir og þeir náðu aldrei að brjóta okkur niður," sagði Þorvaldur.

Hann vildi lítið segja um frammistöðu Fylkis. „Þetta var auðvitað ekki þeirra besti dagur en ég verð fyrst og fremst að hugsa um mitt lið," sagði Þorvaldur.

„Þetta er frábær byrjun á mótinu og gott fyrir leikmenn að vinna í fyrsta leik. Það er búin að vera talsverð spenna í leikmönnum þessa vikuna enda mikið búið að fjalla um mótið í fjölmiðlum. En vika er langur tími í fótbolta og það getur vel verið að við verðum að ræða um allt aðra hluti eftir næsta leik. En vissulega var það léttir að ná góðum úrslitum í dag og jákvætt fyrir framhaldið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×