Innlent

Vísaði frá máli jarðeiganda vegna Urriðafossvirkjunar

Hæstiréttur hefur staðfest frávísun Hérasdóms Reykjavíkur á þrautaþrautavarakröfu jarðeiganda við Þjórsá sem vildi að staðfest yrði með dómi að eignarréttur ríkisins á vatnsréttindum í Þjórsá í landi Skálmsholtshrauns væri niðurfallinn.

Dómsmálið tengist áformum Landsvirkjunar um að byggja Urriðafossvirkjun sem er ein þriggja áformaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Landeigandi Skálmholtshrauns sleit í fyrra viðræðum við Landsvirkjun um málið og bar við of mörgum óvissuþáttum um framkvæmdina. Ríkið öðlaðist vatnsréttindin á þessu svæði og víðar við Þjórsá með svokölluðum Títansamningum árið 1952.

Höfðaði eigandi landsins mál þar sem krafist var viðurkenningar á því vatnsréttindi íslenska ríkisins að Þjórsá í landi Skálmholtshrauns, sem framseld hefðu verið til Landsvirkjunar, væru niður fallinn. Til vara fór eigandinn viðurkenningar á því að hafa eignast að nýju vatnsréttindi Skálmholtshrauns fyrir hefð og til þrautavara var krafist viðurkenningar á því að vatnsréttindi íslenska ríkisins væru niður fallin fyrir vangeymslu og tómlæti. Að lokum var þrautaþrautvarakrafa eiganda sú að vatnsréttindi ríkisins heimiluðu ekki byggingu Urriðafossvirkjunar með tilheyrandi lónum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði bæði ríkið og Landsvirkjun af aðal-, vara- og þrautavarakröfunni og þá var þrautaþrautavarakröfunni vísað frá meðal annars á þeim grundvelli að dómkrafan fæli í sér lögfræðiálit og það væri andstætt lögum um meðferð einkamála.

Eigandi jarðarinnar áfrýjaði frávísunarúrskurðinum til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×