Innlent

Kallað eftir afstöðu stjórnarflokkanna til stýrivaxtahækkunarinnar

MYND/GVA

Kallað var eftir svörum við því hvort stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær nyti stuðning ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í umræðum á Alþingi í dag.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, benti á að misvísandi skilaboð hefðu komið frá ríkisstjórninni. Sumir ráðherrar hefðu talað með hækkun stýrivaxta en aðrir hefðu talað gegn henni. Það gengi ekki að ríkisstjórnin talaði tungum tveim í þessu máli. Kallaði hann eftir áliti þingflokksformanna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í málinu.

Undir þetta tók Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, um leið og hann upplýsti að formenn stjórnarflokkanna hefðu ekki verið upplýstir um það að skilyrði um vaxtahækkun væri inni í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Benti hann á að um 50 prósenta hækkun stýrivaxta væri að ræða, en vextir hækkuðu úr 12 próentum í 18.

Varðmenn krónunnar

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði ákvörðun Seðlabankans tengjast því að standa vörð um krónuna og fá verð fyrir hana. Um það bil 80 prósent að skuldum fyrirtækja væri í erlendri mynt og því væri mikill hagur í því að fá verð á krónuna. Fyrir varðmenn krónunnar hlytu þetta að vera aðgerðir sem menn horfðu til en fyrir hina sem vildu aðra kosti eins og evruna væri um tímabundna aðgerð að ræða til að krónan fengi verð.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi Samfylkingarmenn fyrir að skorast undan ábyrgð og vísa allri ábyrgð á Seðlabankann. Það yrði að fá fram afstöðu Samfylkingarinnar til stýrivaxtahækkunarinnar því flokkurinn færi með völd í landinu. Kallaði hann eftir svörum hjá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir benti á að fulltrúar frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu ásamt hagfræðingum frá háskólasamfélaginu hefðu komið á fund fjárlaganefndar til að fjalla um stöðu mála. Sagði hún enn fremur að Seðlabankinn hefði tekið ákvörðun og tilkynnt um stýrivaxtahækkunina. Það væri í hans valdi. Með þessu væri verið að reyna að ná fram stöðugleika gengis og gjaldmiðils og vonandi næðist það markmið.

Ráðherrum ber ekki saman

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri - grænna, sagði það sérkennilegt að vera vitni að því að ráðherrum í ríkisstjórninni bæri ekki saman um hvort um væri að ræða hefðbundna stýrivaxtahækkun eða ákvörðun í samhengi við samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Mikilvægt væri að fá á hreint hvað væri rétt vegna þess að ríkisstjórnin hefði áður lýst því yfir að ekkert í skilyrðum sjóðsins væri óásættanlegt.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að allir flokkar nema Vinstri - grænir hefðu kallað eftir samstarfi við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn. Það hefði verið ljóst að í samstarfi við sjóðinn þyrfti að hækka stýrivexti. Hins vegar hefði komið á óvart að hækkunin þyrfti að vera svona há sem raun bar vitni.

Enn fremur sagði Arnbjörg að mikilvægt væri að gjaldeyrismarkaðurinn kæmist á rétt ról og stýrivaxtahækkunin væri liður í því. Vonandi hefði hækkunin tilætluð áhrif þannig hægt yrði innan skammst tíma að lækka stýrivexti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×