Innlent

Íslensk stúlka í hringiðu átakanna í Mumbai

Ellý Ármannsdóttir skrifar
Bryndís er til hægri á myndinni.
Bryndís er til hægri á myndinni.

Bryndís Helgadóttir, 19 ára, er íslensk fyrirsæta sem starfar á Indlandi. Hún var stödd í hringiðu atburðanna í Mumbai þegar hryðjuverkamenn gerðu mannskæðar árásir í borginni.

Vísir hafði samband við Bryndísi símleiðis og spurði hvernig hún upplifir ástandið þar í landi.

„Ég er bara góð. Ég er ekki í Mumbai heldur uppí fjöllunum núna. En þetta er hræðilegt og það er ekki öruggt fyrir mig að fara út á götu. Rétt fyrir árásirnar var ég á leiðinni í partý þarna rétt hjá hótel Taj Mahal en sneri strax við þegar vinur minn sagði að það væri ekki öruggt fyrir mig að fara," segir Bryndís.

„Mér líður mjög vel fyrir utan það sem gerðist. Fólkið hérna er mjög vinalegt. Skyldmenni vinar míns voru öll skotin og eru öll dáin nema mamma hans, hún var skotin í magann og lifði af. Hræðilegt."

„Ég er að vinna í fyrirsætustörfum og kem örugglega heim 20. janúar. Já, ég ætla að vera hér yfir jólin. Það er leiðinlegt að missa af kvöldverði með fjölskyldunni en ég hef gert það í 18 ár en núna ætla ég að ferðast um Indland," segir Bryndís.

„Allir sem eru breskir flúðu heim. Enginn Breti er hérna lengur. Allir farnir. Allt var öruggt áður en þetta gerðist. Hryðjuverkamennirnir voru á götunum að skjóta fólk og þeir voru ekkert að hugsa heldur skjóta bara. Þeir mundu pottþétt skjóta mig því ég er ljóshærð."

„Mér er ráðlagt að halda mig innandyra og ég gerði það í tvo daga en ég reyni að hugsa ekki mikið um hættuna. En þetta er mjög sorglegt. Ég sá beina útsendingu í sjónvarpinu og það var hræðilegt. Þar var sýndur alblóðugur lifandi maður og síðan sást hann aftur þegar hann var dáinn. Þetta var hvítur maður ekki Indverji."

„Fyrirsæturnar sem ég vinn með eru að fara heim um jólin," segir Bryndís áður en hún kveður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×