Innlent

Dýrasta koníaksflaska landsins seld í kreppunni

Dýrasta áfengisflaska á Íslandi seldist í gær,örfáum mínútum eftir að Stöð 2 greindi frá henni.

Flaskan er Frapin-koníak frá árinu 1888, eða 120 ára gamalt. Flaskan kostar rétt tæplega 300 þúsund krónur, en eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi er uppsett verð á uppboðsvefnum e-Bay 10 þúsund dollarar eða yfir ellefu hundruð þúsund krónur. Flaskan er enda handgerð með gullhúðuðum tappa og skreytingu og í handsmíðuðum kassa. Tvær svona flöskur eru til í landinu.

Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR hringdi maður í aðra vínbúðina sem var með koníakið til sölu og keypti hana. Viðkomandi býr úti á landi og gekk frá greiðslunni í gegnum síma en sækir flöskuna eftir helgi.

Hvort viðkomandi ætlar að eiga og geyma vínið sem fjárfestingu eða hvort hann ætlar að bjóða hana til sölu á e-Bay er ekki vitað núna. En svo getur auðvitað líka verið að kaupandinn ætli að njóta veiganna, en þess má geta hver sjúss úr svona flösku kostar tæpar 13 þúsund krónur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×