Lífið

Fer í kringum landið á 80 höggum

„Ég held við þurfum nú að vera frekar heppin ef þetta á að nást," segir sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson. Hann leggur um kvöldmatarleitið ásamt fríðu föruneyti af stað í ferð þar sem ætlunin er að spila eina holu á 18 golfvöllum umhverfis landið á sólarhring, til styrktar MND-félaginu.

Logi býst við að þurfa að innbyrða töluvert af koffíni til að halda sér vakandi í ferðinni. „Ég er með kassa af Cult, vona að það dugi eitthvað. Ætli maður reyni ekki líka að ná dúrum í vélinni á leiðinni," segir Logi, en Þorvaldur Lúðvík, forstjóri Saga Capital mun sjá um að ferja hópinn á milli golfvalla á flugvél sinni. Aðspurður hvort hann hafi engar áhyggjur af því að stíga upp í vél með manni sem hefur ekki sofið í sólarhring þvertekur Logi fyrir það. „Nei nei, ég held það sé annar flugmaður líka. Ég hef engar áhyggjur."

Þau Ragnhildur Sigurðardóttir margfaldur Íslandsmeistari í golfi, Þorsteinn Hallgrímsson fyrrverandi Íslandsmeistari og popparinn Eyjólfur Kristjánsson slást í för með Loga, en hann segir þau öll þekkja einstaklinga sem þjást af MND.

MND er banvænn sjúkdómur sem herjar á hreyfitaugar líkamans. Af honum leiðir máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi o.s.fv. sem eykst hratt og endar í algerri lömun. Vitsmunalegur styrkur helst þó óskaddaður. Líftími sjúklinga eftir að þeir fá sjúkdóminn er frá 1 -6 ár en sumir lifa lengur, allt upp undir 10 ár. Á hverju ári greinast um fimm manns Íslandi með MND, og sjúklingar á hverjum tíma eru á bilinu fimmtán til tuttugu.

Þeir sem vilja styrkja félagið geta hringt í síma 908 1001, til að gefa þúsund krónur, 908 1003 til að gefa þrjú þúsund, og 908 1005 fyrir fimmþúsund krónur. Hægt er að hafa samband við þjónustuver Vodafone í síma 1414 fyrir önnur framlög eða nánari upplýsingar um söfnunina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.