Innlent

Fékk lítil viðbrögð við eftirlaunafrumvarpinu

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

,,Viðbrögðin voru ekki mikil en okkur fannst eðlilegt að upplýsa formenn flokkanna um okkar afstöðu. Þolinmæði okkar er á þrotum," segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.

Þingflokkur Vinstri grænna lagði fram í gær frumvarp á Alþingi um að afnema sérréttindi æðstu embættismanna sem kveðið er á um í hinum umdeildu eftirlaunalögum. Áður tilkynnti Steingrímur forystumönnum hinna stjórnmálaflokkanna á fundi í gærmorgun að flokkur sinn hugðist leggja fram frumvarpið.

Steingrímur segir að á fundinum hafi verið rætt stuttlega um frumvarpið og útfærslu þess.

Steingrímur segir að nýverið hafi hann heyrt þau sjónarmið frá stjórnarliðum að hugsanlega verði ekkert aðhafst í málinu fyrir jól. ,,Við ákváðum að leggja okkar spil á borðið því það er ekki eftir neinu að bíða."

,,Ef ríkisstjórnin ætlar ekki að gefast endanlega upp hlýtur hún að bregðst við í formi afstöðu til þessa máls eða koma með eitthvað annað," segir Steingrímur og bætir við að frumvarp þingflokksins hljóti að setja pressu á ríkisstjórnina. Hann vonast til þess að málið komist á hreyfingu á nýjan leik.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×