Innlent

Skorar á aðra veitingamenn að lækka einnig verð

Magnús Ingi Magnússon veitingamaður á Sjávarbarnum í Grandagarði.
Magnús Ingi Magnússon veitingamaður á Sjávarbarnum í Grandagarði.

,,Það liggur einhver doði yfir landsmönnum og fólk hreyfir sig ekki út fyrir dyr. Nú þarf fólk að spjalla saman og peppa hvort annað upp og þetta er ein leið til þess," segir Magnús Ingi Magnússon, veitingamaður á Sjávarbarnum sem hefur lækkað verð á sjávarréttahlaðborði sínu.

Magnús skorar á veitingamenn að taka höndum saman og gera sem flestum kleift að koma saman yfir góðum en jafnramt ódýrum málsverði. Sjálfur hefur hann ákveðið að lækka verð á sjávarréttahlaðborði sínu um helming á kvöldin.

,,Þetta er tilraun til að taka þátt. Ég ætla að reyna að láta þetta ganga upp fram að áramótum en ég ekki von á því að þessi doði hverfi einn tveir og þrír," segir Magnús sem kveðst hafa verið ánægður þegar hann las í morgun að Sambíóin ætla að bjóða upp á talsverðan afslátt á þriðjudögum. Hann hvetur aðila í verslun og þjónustu til að koma til móts við landsmenn og bjóða upp á afslátt og önnur tilboð.

Aðspurður segir Magnús að aðföng og hráefni hafi hækkað umtalsvert í verði undanfarna mánuði. ,,Fiskurinn hefur í sjálfu sér ekki hækkað heldur hefur allt annað hækkað." Magnús nefnir sem dæmi að á undanförnum vikum hafa vörur hjá einum birgja hans hækkað um allt að 20 til 30%.

Magnús segist hafa fengið afar góð viðbrögð þrátt fyrir að vera nýfarinn af stað með tilboðið. ,,Ég er bara svellkaldur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×