Erlent

Lítið að frétta frá Washington

Óvíst er að nokkur áþreifanleg niðurstaða fáist á leiðtogafundi um alheimskreppuna í Washington í dag. Leiðtogar nítján ríkja, forvígismenn Evrópusambandsins og fulltrúar alþjóðasamtaka sitja fundinn sem hófst í Washington í gærkvöldi.

Strax var ljóst að leiðtogar Evrópu og fráfarandi forseti Bandaríkjanna eru ekki á einu máli. Evrópa vill frekari aðgerðir ríkisstjórna til að styrkja efnahag landa heims, samvinnu um nýtt regluverk fyrir fjármálakerfið og endurbætur á alþjóðakerfinu og stofnunum þess sem koma hagkerfum í nauð til hjálpar.

George Bush fráfarandi Bandaríkjaforseti varar hins vegar við of miklum afskiptum af hinum frjálsa markaði. Vonir voru bundnar við að fundurinn í Washington yrði jafn mikill tímamótafundur og sá sem haldinn var í Bretton Woods eftir seinna stríð þar sem fjármálakerfi heimsins var endurskipulagt.

Sérfræðingar óttast að ekkert áþreifanlegt komi út úr viðræðunum í þetta sinn og vekja athygli á að Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, sitji ekki fundinn og spyrja því hvaða þýðingu niðurstaða fundarins hafi í ljósi þess. Líkast til verði þessi fundur í dag lítið annað en formáli að öðrum sem fyrirhugaður er í mars á næsta ári. Hann mun Obama sitja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×