Innlent

Auknar líkur á olíu við Austfirði

Nýjar jarðfræðirannsóknir benda til að líkur séu á að olía kunni að finnast mun nær austurströnd Íslands en áður hefur verið talið og jafnvel undir Austfjörðum. Alþjóðleg olíufélög sýna Íslandi aukinn áhuga vegna nýrra vísindakenninga um tengsl olíu og eldvirkra svæða.

Þeir norsku olíujarðfræðingar sem gerst þekkja til Drekasvæðisins telja að það verði næsti Norðursjór, svo miklar séu auðlindirnir þar, og spá því að fyrsta olían náist þar upp á næstu þremur til fimm árum. En hugsanlega getum við fundið olíu ennþá nær Íslandi.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, segir að vísbendingar hafi verið að koma fram á undanförnum árum sem bendi til þess að meginlandsskjöldurinn, sem talinn er geyma olíu á Drekasvæðinu, teygi sig sunnar og nær Íslandi og jafnvel undir Ísland.

Vegna olíuleitar í Færeyjum og nýrra vísindakenninga um tengsl olíulinda og eldvirkra svæða hafa sex alþjóðleg olíufélög nýlega sent sérfræðinga til rannsókna á Íslandi. Þá eru að fást nýjar vísbendingar með rannsókn Bryndísar Brandsdóttur á hafsvæðinu milli Kolbeinseyjar og Ægishryggs og rannsókn Olgeirs Sigmarssonar á fjallinu Hvítserk á Austurlandi. Þar hafi fundist zirkon-krystallar, sem séu miklu eldri heldur en elsta berg á Íslandi. Þeir séu það gamlir að þeir hljóti að vera úr meginlandsskildinum.

Þetta séu vísbendingar um að meginlandsskjöldurinn sé undir Borgarfirði eystra og ef hann sé samhangandi við Drekasvæðið ætti hann að teygja sig alla leið þangað. Þetta segir Ármann auka líkurnar á olíu mun nær Íslandi og jafnvel undir landinu. Úr því að sérfræðingar telji líklegt að olía finnist í Færeyjum sé mjög líklegt að það sama gildi um Ísland. Úr því fáist ekki skorið nema með rannsóknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×