Erlent

Obama vill að Bush íhugi að sniðganga Ólympíuleika

MYND/AP

Öldungardeildarþingmaðurinn Barack Obama, sem keppir um að verða forsetaefni demókrata, telur að George Bush Bandaríkjaforseti eigi að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking ef Kínverjar leggi ekki sitt af mörkum til að stöðva óöldina í Darfur-héraði í Súdan og bæti stöðu mannréttinda í Tíbet.

Fram hefur komið að Kínverjar styðji stjórnvöld í Kartúm og útvegi þeim jafnvel vopn en yfir 200 þúsund hafa verið myrtar og tvær milljónir flúið heimili sín vegna átakanna í Darfur. Obama sagði þó einnig að ákvörðun um að sniðganga opnunarleikanna ætti að taka þegar nær drægi leikunum.

Obama bætist með þessu í hóp demókrata sem hafa hvatt Bush til þess að sniðganga opnunarhátíðina, en áður höfðu keppninautur hans, Hillary Clinton, og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, gert það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×