Innlent

Þungamiðja búsetu borgarinnar færist til um rúma 70 metra

Á myndinni sést þungamiðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu og þróun hennar frá vorinu 2002.
Á myndinni sést þungamiðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu og þróun hennar frá vorinu 2002. MYND/Vefur Reykjavíkurborgar

Þungamiðja búsetu höfuðborgarsvæðisins hefur færst um 71 metra í Fossvogi frá því í fyrra, eða frá Goðalandi 5 til Grundarlands 4. Þá hefur þungamiðja borgarinnar færst frá þakinu á Menntaskólanum við Sund að lóðamörkum skólans við Snekkjuvog. 

Þetta leiða nýir útreikningar framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar í ljós. Fram kemur á vef hennar að þungamiðja hafi frá því mælingar hófust árið 2002 verið í Fossvogshverfi og hingað til verið á siglingu austur eftir hverfinu. Frá því um sama leyti í fyrra hafa orðið þær breytingar að þungamiðjan hefur beygt til suðausturs og færst um 71 metra sem fyrr segir. Er það talsvert meiri hreyfing en árið á undan.

Skýringa á þessum miklu breytingum er meðal annars að leita í gríðarlegri uppbyggingu á austursvæðum Reykjavíkur og í Mosfellsbæ, á þéttingarsvæðum í norðanverðri Reykjavík, í Vatnsendalandi, í miðju Garðabæjar og á svæðum syðst í Hafnarfirði. Mikil uppbygging í Vatnsmýri, við Örfirisey og Mýrargötu gæti breytt þessari heildarmynd verulega, segir borgin.

Þungamiðja búsetu er reiknuð á grundvelli kortagrunns Landupplýsingakerfis Reykjavíkur og heimilisfangasafns Samsýnar.

Framkvæmda- og eignasvið hefur einnig reiknað út þungamiðju búsetu í Reykjavík einni. Hún var var fyrir ári síðan á þaki Menntaskólans við Sund en hefur færst um 60 metra í suður, alveg að lóðamörkunum við Snekkjuvog. Bilið á milli þungamiðju búsetu á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Reykjavíkur hins vegar hefur minnkað frá síðustu mælingum úr 1560 metrum í 1534 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×