Innlent

„Samgönguráðherra og Vegagerðin mega eiga skömm fyrir“

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

„Ef að við hefðum þetta fagfólk sem er á spítölunum okkar hjá Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu þá værum við í ágætis málum," segir Björgvin Halldórsson tónlistarmaður. Svala dóttir hans liggur ásamt kærasta sínum og félögum í hljómsveitinni Steed Lord slösuð á spítala eftir harðan árekstur við Vogaafleggjara í morgun.

Byrjað var að tvöfalda Reykjanesbrautina árið 2003 en ekkert hefur verið unnið í henni í um fjóra mánuði eftir að verktakinn, Jarðvélar, varð gjaldþrota. Sá hluti verksins sem eftir var, var boðið út í gær og á næstu vikum verður gengið til samninga við tvö félög um að klára verkið. Því á að vera lokið um miðjan október.

„Þeir mega eiga skömm fyrir, samgönguráðherra og Vegagerðin. Þeir eiga að finna sér önnur störf og fá fagfólk í þetta," segir Björgvin. „Ég veit ekki hvað þarf að gerast þarna áður en þeir hreinsa upp eftir þessa gjaldþrota menn sem tóku þetta að sér. Ég er reiður yfir þessu."

Björgvin segist nánast hafa verið á „autopilot" í dag, eftir að Einar, kærasti Svölu, hringdi í hann frá slysstað í morgun til að segja honum hvað hafði gerst. Björgvin segir sjúkrabíla hafa verið fljóta til og hann hafi beðið eftir þeim á slysadeild.

Hann hefur ekki síst samúð með ökumanni hins bílsins, sem þurfti að klippa út úr bíl sínum, og liggur einnig slasaður á sjúkrahúsi. „Við fjölskyldan og allir aðstandendur þökkum bara guði fyrir að ekki fór verr, nógu var það slæmt," segir Björgin. „Þau eru öll rúmföst og undir eftirliti og verða örugglega í nokkra daga en þetta lítur betur út en fyrst á horfði."


Tengdar fréttir

Vegagerðin ætlar að aðskilja akreinar á Reykjanesbrautinni

Vegagerðin hefur ákveðið að aðskilja akstursstefnur á Reykjanesbrautinni þar sem enn á eftir að tvöfalda. Rauð og hvít gátskilti verða sett upp á allra næstu dögum. þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni. Mikið hefur verið rætt um slysahættu vegna ónógra merkinga á brautinni í kjölfar þess að Jarðvélar sögðu sig frá verkinu í lok síðasta árs. Síðast í morgun varð alvarlegt umferðarslys á svæðinu.

Meðlimir Steed Lord á slysadeild eftir harðan árekstur í morgun

Meðlimir hljómsveitarinnar Steed Lord, Svala Björgvinsdóttir söngkona og bræðurnir Einar, Erling og Eðvarð Egilssynir ásamt föður þeirra Agli Eðvarssyni, upptökustjóra Kastljóssins, voru öll flutt á slysadeild eftir harðan árekstur við Vogaafleggjara á Reykjanesbraut í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×