Erlent

Kínverjar gáfust upp á mótmælunum í París

Kínversk yfirvöld gáfust upp á því að flytja ólympíueldinn um París í dag vegna háværra mótmæla stuðningsmanna Tíbets.

Franska lögreglan var með mikinn viðbúnað þegar hlaupa átti með eldinn um borgina en þúsundir manna reyndu að hindra hlaupara á för sinn um borgina. Í þrígang þurftu frönsk yfirvöld að slökkva á kyndlinum og færa hann inn í rútu vegna mótmælanna.

Fór svo á endanum að gestgjafar Ólympíuleikanna, Kínverjar sem skipulögðu hlaupið, ákváðu að stytta það eftir að hlaupararnir höfðu ítrekað orðið fyrir töfum. Var farið með kyndilinn upp í rútu og ekið sem leið á á endapunktinn, leikvang í suðurhluta Parísar.

Á þriðja tug manna var handtekinn fyrir að taka þátt í mótmælunum. Þá stóðu samtökin Fréttamenn án landamæra fyrir mótmælum við Eiffel-turninn þar sem þeir sýndu ólympíufánann með handjárnum í stað ólympíuhringjanna.

Stuðningsmenn Tíbeta efndu einnig til mótmæla í Lundúnum í gær þar sem hlaupið var með ólypmpíueldinn og handtók breska lögreglan nærri 40 manns sem reyndu að hindra för kyndilberanna.

Þrýstingur á kínversk stjórnvöld vegna mannréttindamála og framgöngu þeirra í Tíbet hefur aukist mjög að undanförnu og sömuleiðis þrýstingur á vestræna stjórnmálamenn að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×