Erlent

Tveir látnir úr kúariðu á Spáni

Yfirvöld í Castilla-Leon héraði á Spáni greindu frá því í dag að tvær manneskjur hefðu látist úr Creutzfeldt-Jakob sjúkdómnum sem er afbrigði kúariðu sem leggst á menn.

Enn fremur kom fram að þetta væru ekki fyrstu tilfellin á Spáni en frekari upplýsingar voru ekki gefnar upp. Önnur manneskjan lést fyrir 15-20 dögum en hin í kringum áramót.

Kúariðu varð fyrst vart í Bretlandi á níunda áratugnum og hefur hún greinst í dýrum í nokkrum Evrópulöndum. Vísindamenn telja að sjúkdómurinn berist úr skepnum í fólk með sýktu kjöti og á milli skepna með mjöli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×