Erlent

ESB samþykkir farsímanotkun í flugi

MYND/Getty Images

Evrópusambandið hefur samþykkt notkun almennings á farsímum í flugvélum. Þannig munu farþegar geta talað í síma, sent SMS eða tölvupóst í flugvélum í evrópskri lofthelgi. Með samþykkinu geta flugfélög sett upp farsímaþjónustu í vélum sínum síðar á þessu ári.

Viviane Reding yfirmaður fjarskipta ESB varaði símafyrirtæki við því að verðleggja þjónustuna of hátt og hvatti flugfélög til þess að vernda farþega frá of mikilli símanotkun.

„Farsímaþjónusta um borð í flugvélum getur verið mjög áhugaverð ný þjónusta, sérstaklega fyrir viðskiptamenn sem þurfa að vera í sambandi hvar sem þeir eru," sagði hún í viðtali við AP fréttastofuna. Hún varaði þó við því að ef notendur fengju of háa reikninga fyrir notkun í háloftunum, þá myndi þjónustan líklega ekki ná fótfestu.

Evrópusambandið hvatti flugfélög einnig til að setja siðareglur um borð og tryggja jafnvægi á milli þeirra sem vilja hringja og þeirra sem vilja fá frið í flugi.

„Næstum allir munu vilja nota þessa þjónustu. Við vonum að sumir muni samt njóta flugferða í kyrrð og trufla ekki aðra farþega," sagði Martin Selmayr talsmaður sambandsins.

Nokkur flugfélög, þar á meðal Air France, hafa þegar gert tilraunir með farsímaþjónustu á sumum flugleiðum í Evrópu. British Midland, TAP og Ryanair áforma að bjóða upp á þjónustuna seinna á árinu.

Þýska flugfélagið Lufthansa sagði hins vegar í dag að þeir hefðu ekki í hyggju að taka þjónustuna upp . Talsmaður þess sagði að kannanir hefðu sýnt að mikill meirihluti flugfarþega væri mótfallinn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×