Enski boltinn

Newcastle burstaði Tottenham

Mark Viduka og Michael Owen fagna marki þess síðarnefnda í dag
Mark Viduka og Michael Owen fagna marki þess síðarnefnda í dag NordcPhotos/GettyImages

Newcastle vann í dag annan leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti síðan í desember þegar liðið burstaði Tottenham 4-1 á útivelli eftir að hafa lent undir 1-0.

Jafnræði var með liðunum fyrir hlé í opnum og skemmtilegum leik eins og búast mátti við og stilltu bæði lið upp þremur framherjum. Darren Bent var nokkuð óvænt í byrjunarliði Tottenham og hann kom heimamönnum yfir snemma með góðum skalla.

Eftirleikurinn var þó alfarið gestanna sem áttu fyrsta færi leiksins þegar Habib Beye þrumaði boltanum í slá. Nicky Butt jafnaði leikinn fyrir Newcastle fyrir hlé og Geremi kom gestunum yfir með slysalegu marki í upphafi síðari hálfleiks. Svo virtist sem markvörðurinn Paul Robinson hefði stillt varnarvegg sínum kolvitlaust upp og Geremi skoraði auðveldlega úr lausri aukaspyrnu.

Þar með voru lærisveinar Keegan ekki hættir og þeir Michael Owen og Obafemi Martins tryggðu liðinu öruggan sigur. Bæði lið sigla nokkuð lygnan sjó um miðbik deildarinnar, en sigrarnir tveir hjá Newcastle fara langt með að bjarga liðinu úr þeirri fallbaráttu sem það var komið í á tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×