Lífið

Fréttamaður BBC sprakk í beinni

Charlotte Green.
Charlotte Green. MYND/BBC

Hlustendur BBC Radio 4 urðu frekar undrandi þegar Charlotte Green fréttamaður Today þáttarins fékk hláturkast. Þátturinn er þekktur fyrir alvarlegar fréttir og umfjöllun um helstu mál dagsins með viðeigandi alvarleika. Í miðjum fréttatíma heyrðust fliss og svo hlátrasköll og Charlotte var ómögulegt að halda áfram.

Það sem fékk fréttakonuna til að missa sig í hláturskasti var hljóðbútur af elstu upptöku sem vitað er til af rödd manneskju. Það var kona sem söng franska þjóðsönginn Au Clair de la Lune árið 1860.

Stríðinn tæknimaður í hljóðverinu hvíslaði í eyrnatæki þularins að upptakan hljómaði eins og „suðandi flugur í flösku." Þegar hin virðulega Green reyndi að lesa næstu frétt um dauða Hollywood-handritshöfundarins Abby Mann, sprakk hún úr hlátri og gat ekki hætt. Hún var að reyna að lýsa því þegar Mann vann Óskarsverðlaun árið 1961 fyrir handrit myndarinnar Judgement at Nuremberg.

Hún reyndi að ná tökum á sér og sagði „Afsakið, mér þykir þetta leitt," en rödd hennar brast strax aftur.

Kollegi hennar greip til þess ráðs að taka stað hennar og byrjaði að lesa frétt um ofbeldið í Írak, en í bakgrunni heyrðist fliss Green áfram.

Hún baðst seinna afsökunar og sagði; „Ég er hrædd um að ég hafi bara misst mig. Ég gat ekki hætt. Fólk hefur verið mjög indælt og sagt að þetta hafi hresst þau upp á föstudagsmorgni." Þrátt fyrir það rignidi símtölum reiðra hlustenda yfir BBC sem bað fjölskyldu Mann afsökunar hið snarasta.

Á fréttavef BBC er hljóðupptaka af hláturkasti Green.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.