Lífið

Rolls Royce sportbíll rokselst

Kaupendur lúxusvara hlusta svitna greinilega ekki yfir nær lóðréttu sigi hlutabréfamarkaða undanfarið. Allavega ekki ef marka má viðtökur á sportbílnum Phantom Coupe, sem Rolls Royce kynnti á dögunum. Fyrstu vikuna frá því að bíllinn var kynntur voru pantaðir alls 200 bílar. Framleiðsla á hverju eintaki af Rolls Royce er tímafrek og þetta þýðir að þeir kaupendur sem koma núna verða að bíða fram á mitt ár 2009 til að fá úthlutað bíl.

Phantom Coupe er tveggja dyra og sporlegri en það sem menn eiga að venjast frá Rolls Royce. Að sögn fyrirtækisins er hann hinn fullkomni fararskjóti í lengri ferðir og kjörinn í ferðir milli heimsálfa.

Undir húddinu leynist 6,75 lítra, V12 vél sem skilar 453 hestöflum og innandyra eru öll helstu þægindi sem eigendur Rolls Royce eiga að venjast. Enda markmiðið er að bæði ökumaður og farþegar eigi að geta stigið út úr bílnum eftir heilan dag á akstri án þess að finna fyrir þreytu eða þurfa að slétta föt sín. Það er ekki ónýtt fyrir heimsborgara búsettum í Lundúnum sem vill skjótast dagsferð yfir á meginlandið og skella sér í spilavítið í Mónakó.

Rolls Royce verksmiðjurnar eru í eigu BMW og að sögn Andrésar Jónssonar kynningarstjóra B&L, umboðsaðila BMW á Íslandi, er lítið mál að panta svona bíl fyrir íslenska bíláhugamenn. „Við fluttum inn tvo bíla árið 2007 þegar við tókum að okkur að Evrópu-frumsýna fyrsta Phantom-týpurnar af Rolls Royce, en þeir bílar voru fluttir beint út aftur eftir sýninguna". Aðspurður segir Andrés markaðinn fyrir Rolls Royce vera lítinn enn sem komið er á Íslandi. „Það er helst að það hafi frést af íslenskum auðmönnum á svona bílum erlendis," segir Andrés.

Að sögn Andrésar kostar bíll af þessari gerð í kringum 90 milljónir íslenskra króna hingað kominn, sé miðað við gengisskráningu dagsins í dag. „En vonandi verður gengið bráðum skaplegra. Það ætti að geta gert þennan bíl að raunhæfari kosti fyrir íslenska bíláhugamenn," segir Andrés kíminn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.