Enski boltinn

Það er meira slúður í enska boltanum en Formúlu 1

Flavio Briatore segir QPR-menn ekki ætla út í neitt rugl þó þeir eigi nóg af peningum
Flavio Briatore segir QPR-menn ekki ætla út í neitt rugl þó þeir eigi nóg af peningum AFP

Flavio Briatore, meðeigandi í QPR, segist ekki ætla að láta umboðsmenn kúga sig þó stjórn félagsins ætli sér stóra hluti á næstu árum. Félagið skrifaði nýverið undir þriggja milljarða króna styrktarsamning við íþróttavöruframleiðandann Lotto.

Briatore er mjög efnaður og auk þess að eiga helming í QPR er hann liðsstjóri Renault-liðsins í Formúlu 1. Hann keypti sig inn í QPR í nóvember á síðasta ári ásamt Formúlumógúlnum Bernie Ecclestone og Lakshimi Mittal, en þeir eru tveir af efnuðustu mönnum á Bretlandseyjum.

QPR var í fallbaráttu í B-deildinni þegar þeir keyptu, en nú á að tjalda öllu til að koma liðinu í fremstu röð. Þeir félagar hafa gefið það út að koma eigi liðinu í Meistaradeildina eftir aðeins fimm ár.

Briatore segist þó ekki ætla að feta í fótspor manna eins og Roman Abramovich vinar síns hjá Chelsea þegar kemur að því að byggja liðið upp.

Fjölmiðlar eru strax farnir að finna peningalykt af QPR og hafa orðað það við stórstjörnur á borð við Luis Figo hjá Inter Milan.

"Alli halda að þeir geti komið hingað og mergsogið okkur, en hér er ekkert að sjúga. Það getur vel verið að hluthafarnir eigi mikið af peningum, en það þýðir ekki að félagið sé ríkt. Það eru draumórar að ætla að við séum að fara að kaupa leikmenn eins og Figo til félagsins. Það er mikið slúðrað í enska boltanum - meira að segja meira en í Formúlu 1," sagði Briatore.

"Chelsea er Chelsea og QPR er QPR. Við munum ekki kasta peningunum okkar út um gluggann. Við viljum leikmenn sem leggja hart að sér, enga stjörnuleikmenn. Við viljum fyrst og fremst leikmenn sem endurspegla metnað stjórnarinnar," sagði Briatore.

QPR er sem stendur í 14. sæti í B-deildinni á Englandi og sagt er að eigendurnir séu tilbúnir að eyða um 10 milljónum punda til leikmannakaupa í sumar.

Þá þykir ljóst að ef metnaður félagsins er jafn mikill og eigendurnir vilja meina, þurfi liðið að flytja á nýjan heimavöll fljótlega. Staðir eins og Hammersmith og Fulham hafa verið nefndir í því sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×