Lífið

„Fimmti Bítillinn“ látinn

Neil Aspinall í London.
Neil Aspinall í London. MYND/AP

Neil Aspinall náinn vinur Bítlanna og maðurinn sem stjórnaði Apple music veldi hljómsveitarinnar er látinn. Fjölskylda hans tilkynnti um andlát hans í dag. Neil var 66 ára gamall. Hann vann sem rótari hljómsveitarinnar og bókhaldari áður en hann varð framkvæmdastjóri Apple Corps. Hann var einnig þekktur sem „Fimmti Bítillinn.“

Í yfirlýsingu sem gefin var út fyrir hönd Paul McCartney og Ringo Starr var honum lýst sem stórkostlegum manni sem yrði saknað. Þar sagði einnig að hann hefði verið tryggur vinur og störf hans fyrir Bítlana hefðu áhrif á næstu kynslóðir. Yfirlýsingin var einnig rituð í nafni Yoko Ono og Oliviu Harrison.

Aspinall var í Liverpool drengjaskólanum á sama tíma og McCartney og Harrison. Þegar þeir stofnuðu Bítlana varð hann rótari þeirra. Eftir því sem vinsældir hljómsveitarinnar uxu tók hann sér fleiri hlutverk til aðstoðar við fjórmenningana áður en hann tók við stjórn Apple Corps. Þá sagðist hann aðeins ætla að stjórna því þar til þeir fyndu einhvern annan. En reyndin varð önnur.

Aspinall lést á sjúkrahúsi í New York eftir stutt veikindi. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Suzy og fimm börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.