Enski boltinn

Ronaldo toppaði Best - Ferguson ánægður

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson hrósaði Cristiano Ronaldo enn eina ferðina í kvöld eftir að sá portúgalski skoraði 33. markið sitt á leiktíðinni og sló met George Best yfir flest mörk skoruð af vængmanni á leiktíð.

Ronaldo skoraði bæði mörk United í 2-0 sigri á Bolton í kvöld. 

"Þetta met er stórkostlegt og segir sína sögu um leikmanninn. Ég held að sé ekki maður í hans stöðu í heiminum sem er að spila svona vel og skora svona grimmt," sagði Ferguson.

Hann var þvínæst spurður að því hvort hann teldi Ronaldo vera besta knattspyrnumann heimsins í dag.

"Ég sagði nú að mér finndist hann sá besti í fyrra en þá var Kaka kjörinn bestur og átti það líklega skilið. Það var mikið til vegna þess að lið hans varð Evrópumeistari, menn eru dæmdir mikið eftir frammistöðu sinni í Evrópu og hver veit nema Ronaldo verði í aðstöðu til að stimpla sig inn þar í ár," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×