Enski boltinn

Fyrsti heimasigur City á árinu

Stephen Ireland fagnar umdeildu jöfnunarmarki sínu
Stephen Ireland fagnar umdeildu jöfnunarmarki sínu NordcPhotos/GettyImages

Manchester City tryggði sér í dag fyrsta sigur sinn á heimavelli síðan um miðjan desember þegar liðið lagði vankaða deildarbikarmeistara Tottenham 2-1.

Um tíma leit út fyrir enn ein vonbrigðin hjá City því Robbie Keane kom gestunum frá Lundúnum yfir með laglegu marki fyrir hlé. Áður vildu City menn fá vítaspyrnu eftir að skot Michael Johnson virtist fara í höndina á Michael Dawson í teignum.

Stephen Ireland jafnaði metin fyrir City þegar hann potaði sendingu Elano í netið en var líklega rangstæður þegar hann skoraði. Heimamenn áttu þó jöfnunarmarkið vel skilið.

Það var svo Nedum Onuoha sem skoraði sigurmark City skömmu síðar þegar hann skallaði hornspyrnu í netið framhjá Paul Robinson sem stóð eins og stytta í markinu.

Varamaðurinn Darren Bent náði eftir þetta að skora fyrir Tottenham en mark hans var dæmt af vegna umdeilds rangstöðudóms.

Þetta var fyrsti sigur Manchester City á Tottenham síðan í apríl árið 2003, en City þurfti nauðsynlega á sigri að halda í dag. Liðið byrjaði leiktíðina á milklu flugi en hefur síðan verið í bullandi vandræðum.

Tottenham liðið byrjaði leiktíðina að sama skapi mjög illa, en rétti mikið úr kútnum eftir að Juande Ramos tók stjórninni. Gengi liðsins í síðustu leikjum í deildinni hefur hinsvegar verið mjög rokkandi eins og liðið hefur verið þekkt fyrir undanfarin ár og í raun þarf liðið að fara að finna stöðugleika ef það á ekki að sogast inn í fallslaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×