Enski boltinn

Allardyce vill að Keegan fái meiri tíma

NordcPhotos/GettyImages

Sam Allardyce segist ekki vera bitur lengur eftir að hann var rekinn frá Newcastle í vetur og vill að forráðamenn félagsins veiti Kevin Keegan lengri tíma en hann fékk sjálfur til að byggja liðið upp.

Allardyce var nokkuð óvænt rekinn frá Newcastle eftir að hann þótti ekki ná viðunandi árangri, en Keegan væri líklega feginn ef hann hefði náð að jafna árangur Allardyce -enda hefur hann ekki enn náð að stýra liðinu til sigurs og er það nú í bullandi fallbaráttu.

Allardyce segist vona að stjórn Newcastle gefi Keegan öllu meiri tíma til að fóta sig.

"Newcastle verður frábært lið í nánustu framtíð en því lengur sem liðið er í erfiðleikum, því erfiðara verður að ná því takmarki. Það þýðir hinsvegar ekki að vera alltaf að skipta um stjóra," sagði Allardyce, sem er búinn að jafna sig á brottrekstrinum.

"Ég er ekki bitur lengur og er farinn að horfa fram á við. Við vorum rétt að finna taktinn því við breyttum miklu hjá félaginu og þetta var bara spurning um smá þolinmæði. Menn ætlast oft til þess að maður reisi Empire State bygginguna á einum mánuði í þessum bransa - en það er auðvitað ekki hægt," sagði Allardyce í samtali við Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×