Enski boltinn

Fjórða jafnteflið í röð hjá Arsenal

NordcPhotos/GettyImages

Arsenal slapp með skrekkinn á heimavelli sínum Emirates í dag þegar það náði aðeins 1-1 jafntefli gegn Middlesbrough í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Það var fyrrum Arsenal-maðurinn Jeremie Aliadiere sem kom Boro á bragðið eftir snarpa sókn í fyrri hálfleik og þannig var staðan í hálfleik. Arsenal var fjarri því sannfærandi í leiknum en náði með mikilli baráttu að jafna leikinn á 78. mínútu.

Þar var að verki varnarmaðurinn Kolo Toure sem skallaði hornspyrnu í varnarmann, þaðan í markvörðinn og í netið. Mjög klaufalegt hjá liðsmönnum Middlesbrough.

Aðeins nokkrum mínútum síðar var varamanninum Mido vikið af leikvelli fyrir karatespark á Gael Clichy og við það jókst pressa heimamanna enn á mark Boro.

Þeir náðu hinsvegar ekki að tryggja sér sigur og urðu að sætta sig við fjórða jafnteflið í röð og hafa hlotið jafn mörg stig og Manchester United á toppi deildarinnar.

Middlesbrough má vel við una enda er liðið það eina í deildinni sem hefur náð að vinna Arsenal í deildinni í vetur. Það er hætt við því að leikmenn Arsenal muni naga sig í handabökin í sumar ef til þess kemur - eftir að hafa aðeins náð í eitt stig af sex mögulegum gegn Boro í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×