Enski boltinn

Enski í dag: Bendtner bjargaði stigi fyrir Arsenal

Bendtner kom inn sem varamaður og tryggði Arsenal stigið
Bendtner kom inn sem varamaður og tryggði Arsenal stigið Nordic Photos / Getty Images

Danski framherjinn Nicklas Bendtner var hetja Arsenal í dag þegar hann tryggði liðinu stig gegn Aston Villa á heimavelli með þvi að jafna metin í 1-1 þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Það var Philippe Senderos sem kom Villa yfir í fyrri hálfleik með sjálfsmarki, en Villa menn geta nagað sig í handabökin eftir fína frammistöðu á Emirates í dag.

Manchester United nýtti sér að Arsenal tapaði stigum þegar það lagði Fulham auðveldlega á útivelli 3-0 með mörkum frá Owen Hargreaves og Ji-Sung Park. Þriðja markið var sjálfsmark frá Simon Davies. Forysta Arsenal er því aðeins eitt stig á toppnum.

Chelsea rúllaði yfir West Ham á útivelli 4-0 þar sem Frank Lampard, Joe Cole, Michael Ballack og Ashley Cole skoruðu mörk Chelsea. Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir Chelsea en þá var Frank Lampard vikið af velli. Chelsea bætti engu síður við einu marki í síðari hálfleiknum og vann öruggan sigur.

Tottenham virtist þjást af timburmönnum eftir sigurinn í deildarbikarnum um síðustu helgi því liðið var kjöldregið 4-1 af Birmingham. Mikael Forssell skoraði þrennu í leiknum en lið Tottenham spilaði afleitan varnarleik án þeirra Ledley King og Jonathan Woodgate - og ekki var Paul Robinson að stimpla sig vel inn í markinu.

Reading stöðvaði langa taphrinu með gríðarlega dýrmætum útisigri á Middlesbrough 1-0 þar sem James Harper skoraði sigurmarkið í blálokin. Ívar Ingimarsson var í byrjunarliði Reading.

Blackburn steypti Kevin Keegan og félögum í Newcastle enn dýpra ofan í fallbaráttuna með 1-0 sigri á St. James´ Park. Það var Matt Derbyshire sem skoraði sigurmark Blackburn undir lokin.

Derby og Sunderland skildu jöfn 0-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×