Fótbolti

Fjölmiðlamenn í Nígeríu eru rasistar

Nordic Photos / Getty Images

Þýski þjálfarinn Berti Vogts hefur mátt þola harða gagnrýni í fjölmiðlum í Nígeríu eftir að landsliðið var nálægt því að falla úr leik í riðlakeppni Afríkukeppninnar í knattspyrnu. Vogts segir fjölmiðlamenn í landinu vera rasista.

"Ef hvítir fjölmiðlamenn hefðu komið svona fram við svartan þjálfara hefði verið talað um kynþáttafordóma. Ég þarf ekki að sætta mig við svona framkomu og tala því aðeins við alþjóðlega blaðamenn," sagði Vogts eftir að hafa neitað fjölmiðlamönnum frá Nígeríu um viðtöl eftir 2-0 sigur á Benin.

Mikið hefur verið ritað um að Vogts sé að hætta með landslið Nígeríu, en fjölmiðlar þar í landi hafa farið offari í gangrýni sinni að hans mati.

"Mér er alveg sama um þessar vangaveltur. Ég veit hvaða menn eru að skrifa þetta. Þeir skrifuðu meira að segja að við gætum ekki æft vegna snjóa og ísa þegar við vorum í æfingabúðum í Malaga á Spáni - í 20 stiga hita! Þessir menn eru ekki einu sinni hérna á mótinu - þeir eru heima hjá sér og horfa á þetta í sjónvarpinu og ætlast til þess að við verðum heimsmeistarar," sagði Þjóðverjinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×